Námskeið í jazzpíanóleik með Söru Mjöll

Í dag, laugardag, var haldið námskeið fyrir lengra komna píanónemendur í jazzpíanóleik hjá Tónlistarskóla Rangæinga. Það var Sara Mjöll Magnúsdóttir fyrrverandi nemandi við skólann sem kynnti grundvallaratriði í jazzpíanóleik fyrir nemendum á námskeiði sem samanstendur af hóptíma og einkatímum. Nemendur létu vel af námskeiðinu og Sara Mjöll var ánægð með nemendur skólans.

Námskeiðahald fyrir nemendur er fastur liður í starfi skólans en skólinn fær árlega til sín einn til tvo tónlistarmenn til að halda stutt námskeið.

 

 

Úr starfi skólans-undirbúningur undir afmælistónleika nemenda 1. maí.

Það hefur verið mikið um að vera í Tónlistarskóla Rangæinga síðustu vikur og mánuði. Æfingar fyrir afmælistónleika nemenda, sem verða haldnir 1. maí kl. 16:00 í Hvolnum, eru komnar á fullan skrið. Dagskrá tónleikanna fyrir hlé er helguð ryþmísku samspili.

Skólastjórinn leit við á æfingu hjá rymþmasveitinni á Hvolsvelli sl. föstudag þar sem umsjónamenn sveitarinnar þau Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir verkefnastýra og Skúli Gíslason sérlegur ráðgjafi stýrðu af listfengi. Það var frábært að fá að upplifa brot af því sem þau hafa verið að æfa en þeirra framlag á tónleikunum verður helgaður íslenskum þjóðlögum, rímnakveðskap og fleiru. Söngnemendur skólans taka þátt í atriði rymþasveitar og það stefnir allt í að stigin verði nokkur dansspor í takt við þjóðlagaarfinn.

Eftir páska fer skólastjórinn og heimsækir ryþmasveitina á Hellu til að smella af þeim myndum. Sveitin þar leggur áherslu á tónlist sem er nær okkur í tíma, þekkt sönglög bæði íslensk og erlend. Við erum alveg svakalega stolt af krökkunum okkar í Tónlistarskóla Rangæinga og hlökkum mikið til 1. maí 🙂