Forskóli

 

  Til foreldra/forráðamanna barna í forskóla   Öll börn í Rangárvallasýslu eiga þess kost að stunda tónlistarnám á vegum forskóla Tónlistarskóla Rangæinga í gegnum grunnskóla sýslunnar. Það er metnaður okkar að gera tónlistar- og hljóðfæranámið fyrir forskólanemendur sem fjölbreyttast. Við viljum kynna fyrir þeim allar tegundir tónlistar, kenna þeim að meðtaka ólíka stíla og kenna þeim grundvallar atriði á þau hljóðfæri sem eru í boði hvert skólaár. Forskóli leikskóla er kenndur í elstu deild leikskóla. Forskóli grunnskóla er kenndur í 1., 2. og 3. bekk í Grunnskólanum á Hellu og í Laugalandsskóla. Í Hvolsskóla er kennt í 2., 3. og 4. bekk. Kennslufyrirkomulag tíma í forskóla er ákveðið af tónlistarkennurum. Bekkjum er skipt upp í hópa (4 -5 nemendur í hóp).  Oftast skilar bekkjarkennari barnanna inn tillögu að hópaskiptingu. Í forskólanum er gert ráð fyrir að hvert barn fái brot úr hverjum tíma (40 mín) sem einkakennslu á hljóðfærið. Hvort það er hægt að koma því við fer eftir samsetningu hópsins. Það kemur fyrir að fleiri en 5 nemendur þurfa að vera í hópnum og þá er reynt að vinna meira í skapandi starfi með söng, hreyfingu, tónlistarleikjum tengdum takti og tónum. Þegar ekki eru fleiri en 5 nemendur í hóp eru nemendum kennd undirstöðuatriði á hljóðfæri eins og hægt er.  Á meðan einn lærir eru hinum sett fyrir verkefni tengd tónlist. Þau verkefni geta verið einstaklingsmiðuð eða hópverkefni.

Yfir veturinn eru einnig haldnir stórir hóptímar með öllum bekknum. Þá er farið í leiki með dans og söng, jafnvel kennslu á tónlistarforrit eða börnunum kynnt efni tengt tónlist myndrænt eða með hlustun. Gerðar eru hóflegar kröfur til barna í forskóla hvað varðar heimanám. Sama gildir um hljóðfæranám í forskóla og hefðbundið hljóðfæranám, árangur byggir að öllu leiti  á ástundun í tímum og æfingum heima við. Markmið í forskóla er ekki beinlínis að börnin læri á hljóðfærin og geti spilað lag á þau. Nemendur læra grundvallaratriðin eins og t.d. líkamsstöðu og grunnstöður, jafvel einföld lög ef vel gengur og áhugi er mikill. Nám á hljóðfæri er alltaf mikil handavinna og krefst venjulega að lágmarki hálftíma víku í einkatímum fyrir byrjendur í eiginlegu námi sem og mikilla heimaæfinga, eigi árangur á að nást.

Markmið með forskóla er ekki það sama og í einkanámi í tónlist. Markmið í forskóla byggja fyrst og fremst á því  að leyfa börnunum að kynnast hljóðfæranámi.  Reyna að vekja áhuga á því  og kynna fyrir  þeim þann fjölbreytta heim sem tónlistin er. Öll börn hafa ekki áhuga á hljóðfæranámi en við reynum að gera tímana áhugaverða fyrir þau og leita leiða til að tímarnir nýtist þeim. Forskólatónleikar eru haldnir undir lok skólaársins. Þar koma fram þeir nemendur sem vilja flytja tónlist fyrir gesti. Námsmat í forskóla er gefið með umsögn og einkunn fyrir starfið yfir veturinn. Námsmat úr forskóla er afhent ásamt námsmati frá grunnskóla á skólaslitum. Tengiliður forskólakennara við foreldra vegna nemenda er  bekkjarkennari.  

Tónlistarskóli Rangæinga lánar áhugasömum nemendum í forskóla hljóðfæri heim eins og kostur er.  Ekki er talin ástæða til að lána út hljóðfæri ef nemendur æfa sig ekki á þau heima. Við bjóðum foreldra velkomna að líta við hjá okkur í fyrsta forskólatíma og í foreldravikum. Sjá skóladagatal HÉR. Foreldrum er velkomið að hafa samband við skólastjóra ef spurningar vakna varðandi forskólanámið. Senda má tölvpóst á tonrang@tonrang.is.  

Námsmarkmið í forskóla:

 

Elsti árgangur í leikskóla:

Leikskólinn á Hellu og Hvolsvelli: Almenn tónlistarfræðsla með áherslu á söng og kynningar á hljóðfærum.

Leikskólinn á Laugalandi: Almenn tónlistarfræðsla með söng og kynningar á hljóðfærum.  Nemendur í forskóla  byrja að læra um Maxímús Músíkús bæði í Þrautabók, hlustun og með sögulestri úr bókum hans. Einnig er stuðst við ýmis tónlistarforrit.

1 - 4.  bekkur grunnskóla:

Nemendur læra að kynnast hljóðfærum. Að mestu kennt á blokkflautu, hljómborð, ukulele og söng.

Námskröfur: í vinnslu :-)  

Kennsluefni: Nemendur fá ýmist bækur eða ljósritað efni afhent hjá kennurum. 

Námsmat: skrifleg umsögn um ástundun og vortónleika :-)